Undraefnið kollagen og þýðing þess
Kollagen er algengasta prótín líkamans og gegnir það fjölmörgum hlutverkum. Kollagen myndar meðal annars bein, tennur, sinar, liði, liðbönd og brjósk og gegnir einnig veigamiklum þætti þegar kemur að heilbrigðu hári, húð og nöglum.
Kollagen framleiðsla minnkar með aldrinum
Líkaminn framleiðir kollagen fram að fertugsaldri en eftir það fer framleiðslan verulega minnkandi, það fer meira að segja að draga úr henni eftir tvítugt. Eitt sýnilegt merki um þetta er í húðinni, sem verður minna þétt og sveigjanleg, en svo eftir fertugt fara brjósk og bein að veikjast og liðir að eyðast og öldrunareinkenni eins og hrukkur að láta á sér kræla. Þá getur verið gott að hefja inntöku á kollageni til að vinna á móti minnkaðri framleiðslu. Margir hefja líka inntöku vel fyrir tvítugt þar sem kollagen er einstaklega hjálplegt þeim sem stunda mikla hreyfingu.
Amínósýrur í kollageni
Amínósýrur eru byggingarefni prótína en kollagen hefur að geyma sérstæða blöndu amínósýra sem er kjörin fyrir hvers kyns gróanda, bæði sára og beina. Þessar amínósýrur eru oft af skornum skammti í mataræði okkar vesturlandabúa þar sem við leggjum okkur ekki lengur til munns fæðu sem er svo að segja “frá nös að dindli” heldur aðallega vöðva af dýrum - og fleygjum síðan restinni.
Kollagenið fæst nefnilega með því að sjóða niður bein, sinar, liði, brjósk, hófa og hækla, svo úr verði næringarríkur vökvi, en einnig að borða stoðvef dýra t.d. húð eða þá innmatinn – lifrina, nýrun, magann, tunguna, heilann og augun. En fyrir okkur gikkina og letingjana er sem betur fer hægt að kaupa kollagen í duft formi sem er algerlega bragðlaust og gefur morgun-boostinu aðeins rjómakenndari áferð sem flest okkar eru einungis ánægð með.
Heilsufarsleg áhrif kollagens eru margvísleg
Kollagen er sérstaklega ríkt af glýsíni (e. glycine), prólíni (e. proline), hýdroxýprólíni (e. hydroxyproline) sem er nauðsynlegt fyrir meðal annars vöðvauppbyggingu og creatine framleiðslu. Glýsín er bólgueyðandi, mikilvægt fyrir heilbrigt taugakerfi og heilsu frumna og styður almenna vellíðan og prólín er ábyrgt fyrir endurnýjun frumna og hjálpar til við gróanda. Valín (e. Valine), lefsín (e. Leucine) og ísóleucín (e. Isoleucine) sem finna má ríkulega í kollageni eru taldar sérstaklega góðar amínósýrur fyrir þá sem stunda mikla hreyfingu og líkamsæfingar hreyfingu / æfingar, þar sem þær hjálpa til við að draga úr vöðvaskemmdum og að auka vöðvauppbyggingu. Arginín (e. Argenine) sem einnig má finna í kollageni er mikilvægt fyrir gróanda, til að byggja upp vöðvamassa og á mikilvægan þátt í að viðhalda æðaveggjum.
Glútamín (e. Glutamine) er svo aftur ámóti mikilvægt fyrir ónæmiskerfið og þá sérstaklega meltingakerfið. Glútamín nærir þarmaflóruna og hjálpar til við að gera við þarmaveggina, sem sífellt endurgera sig.
Ef kollagen er fengið úr soði eða innmat, er þar oft að finna sérstök sykurprótín; glýkósamínóglýkans (e. glycosaminoglycans eða GAGs) eins og til dæmis chondroitin súlfat (e. Chondroitin sulfate) og glúkósamín (e. Glucosamine sulfate) sem eru efnasambönd sérdeilis góð fyrir liðina og eru meðal annas seld sem fæðubótarefni við liðagigt, slitgigt og öðrum bólgusjúkdómum. Einnig er þar að finna hýalúrónsýru (e. Hyaluronic acid) sem seld er sem undrameðal við húðvandamálum og hrukkum. Þegar kemur að kollageni í duft formi er vanalega búið að einangra þessi efni frá og þau svo seld sér í ofannefndum tilgangi.
Gerðir af Kollageni
Til eru amk 15 gerðir af kollageni en yfir 80% af því kollageni sem finnst í spendýrum er af gerð I, II og III.
- Kollagen af gerð I: Er myndað úr þéttum trefjum og byggir upp bein, tennur, sinar, bandvef, liðtönd, húð og trefjabrjósk. Þessi týpa er mest notuð til að fegra húðina, minnka fínar línur og til að auka heilbrigði hárs og nagla. Týpa I er líka talin græðandi fyrir þarmavegginn og meltinguna. Kollagen af gerð I og III skarast svo oft er hægt að finna báðar gerðir saman í bætiefnum sem er bara af hinu góða. Hins vegar ef leita á að týpu I þá má hana helst finna í fiski kollageni.
- Kollagen af gerð II: Er gerð úr lauslegum trefjum má finna í teygjanlegu brjóski. Þetta er sú týpa sem á taka inn fyrir liðina og sú týpa sem gigtarsjúklingar og íþróttafólk leita uppi. Helst má finna þessa týpu í kjúklinga kollageni.
- Kollagen af gerð III: Styður uppbyggingu vöðva og má finna í beinmerg, vöðvum, vefjum líffæra, slagæða og húðar. Þessi týpa er eins og fyrr segir oft með týpu I og er notuð við meltingar - og húð vandamálum fyrst og fremst. Týpu III má helst finna í nauta kollageni (e. Bovine collagen) en þar er líka týpu I að finna.
Næringarefni sem hjálpa til við kollagen framleiðslu
Hægt er að hjálpa líkamanum að framleiða kollagen með því að tryggja að þú fáir nóg af eftirfarandi næringarefnum:
- C- vítamín
- Kopar
- Amýnósýran Prólín
- Amínósýran Glýsín
Allt kollagen byrjar sem procollagen. Líkaminn þinn framleiðir procollagen með því að sameina fyrrnefndar amínósýrur: glýsín og prólín og í því ferli er notast við bæði C-vítamín og steinefnið kopar. Þess vegna má oft finna C-vítamín og kopar í kollagen dufti.
Þættir sem valda skemmdum á kollageni
Einnig er hægt að hjálpa líkamanum að varðveita og vernda kollagen með því að forðast eftirfarandi umhverfisþætti og hegðun:
- Sykur og einföld kolvetni
- Of mikil sól
- Reykingar
- Svefnleysi
Of mikill sykur og það sem þeirri neyslu tengist truflar endurnýjunargetu kollagens, útfjólubláa geislunin frá sólinni dregur úr framleiðslu þess sem og eiturefni af völdum reykinga. Lágmarka neyslu á sykri og sterkju, forðast of mikla sól og snarhætta reykingum og allir eru í toppmálum!
Kjarni málsins
Kollagen er mikilvægt prótein með kjörna amínósýrublöndu fyrir uppbyggingu og gróanda í líkamanum. Rannsóknir hafa meðal annars sýnt að kollagen inntaka getur bætt húð, uppbyggingu vöðva og dregið úr sársauka í tengslum við slitgigt.
Heimildir:
- https://www.ncbi.nlm.nih.gov/pmc/articles/PMC6213755/
- https://www.ncbi.nlm.nih.gov/pmc/articles/PMC6835901/
- https://www.ncbi.nlm.nih.gov/pmc/articles/PMC5383229/
- https://www.ncbi.nlm.nih.gov/pmc/articles/PMC6566884/
- https://www.ncbi.nlm.nih.gov/pmc/articles/PMC4530891/
- https://www.ncbi.nlm.nih.gov/pmc/articles/PMC4057461/
- https://www.ncbi.nlm.nih.gov/pubmed/29099747
- https://www.ncbi.nlm.nih.gov/pubmed/24852756