Skip to main content

Teljast trefjar til hitaeininga?

Ágreiningur næringarfræðinnar sem fór fram hjá öllum...

Gjarnan má heyra fólk fullyrða að trefjar hafi engar hitaeiningar á meðan eiginlega allar opinberar heimildir telja trefjar til heildar kolvetna í næringarútreikningum. Staðreyndin er hinsvegar sú að það eru hitaeiningar í trefjum, bara ekki eins margar og í meltanlegum kolvetnum.

Til meltanlegra kolvetna teljast óleysanleg kolvetni eins og sterkja sem finna má í korni og kartöflum og leysanleg kolvetni eins og m.a. frúktósi og galaktósi sem finna má í ávöxtum og mjólkursykri. Til ómeltanlegra kolvetna telst sellulósi eða einfaldlega trefjar sem finna má í grænmeti og kornklíði. Trefjum er svo líka skipt upp í leysanlegar, hins vegar og óleysanlegar, annars vegar.

Öll meltanleg kolvetni eru algjörlega brotin niður, frásoguð og breytt í orku í líkamanum.
Þessu er aðeins öðruvísi háttað með ómeltanleg kolvetni/trefjar. Þær eru ekki meltar af líkamanum á sama hátt. Leysanlegar trefjar næra bakteríur í smáþörmunum sem svo framleiða stuttkeðju fitusýrur sem frásogast og er breytt í orku í líkamanum. Óleysanlegu trefjarnar geta líka nært örverur í þörmunum en mynda aðallega svokallað burðarefni fyrir hægðir og koma þeim hraðar í gegnum meltingarveginn.

En hér flækist málið. Framan af voru trefjum úthlutaðar 4 hitaeiningar (kcal) á hvert gramm af orku, sem er það sama og öll meltanleg kolvetni. Hins vegar er áætlað að það séu 2 hitaeiningar per gramm af trefjum sem samanstanda af u.þ.b. 70% óleysanlegum trefjum (og þá 30% leysanlegum), og hefur þetta verið samþykkt af flestum löndum sem nýr staðall.

FAO/WHO viðurkenndi nýja staðalinn árið 2002. Evrópusambandið, Norðurlöndin, Japan og Ástralía hafa samþykkt nýja staðlinn og leitast nú við að fara eftir honum í næringarútreikningum þó ekki sé sakhæft að fara enn eftir þeim gamla. Kanada vinnur einnig nú að breytingum hvað nýja staðalinn varðar. Hins vegar nota flestar heimildir áfram 4 kcal per gramm af trefjum og ennfremur er erfitt að vita/finna hvorn staðalinn er verið að nota í útreikninga.

Þrátt fyrir þetta eru Bandaríkin eitt af þeim löndum sem enn fara eftir fyrri staðli. Matvæla framleiðendum er þó heimilt að útiloka óleysanlegar trefjar í næringarútreikningunum á kolvetnum þar í landi. Til að mynda eru 4 kcal í öllum trefjum í einum mest notaða næringargagnagrunni í heiminum; USDA National Nutrient Database.

Alla jafna hefur almenningur jafnt sem fræðimenn tekið nýjum hitaeininga stuðli fyrir trefjar fagnandi þó sumum þyki þetta aðeins flækja málin enn frekar. Hvenær allir leggjast á eitt um að uppfæra gagnagrunna og merkingar matvæla er óráðið, en ljóst er að matvælaframleiðandinn græðir frekar á því en ekki.

Með þetta í huga, spyr maður sig hvenær farið verður fram á að leysanlegar trefjar teljist til fitu? En það er efni í annan pistil. Að lokum bendum við á gagnagrunn sem fer eftir nýja staðlinum: https://www.matvaretabellen.no/

Heimildir: