Skip to main content

Takk fyrir taco

Landsmenn gæða sér á mörg þúsund taco réttum á ári. Fyrir sumum er taco hversdagsmatur en hjá öðrum er það spari, eitthvað til að gera helgina, fríið eða sumarbústaðaferðina extra góða.

Birt 05. Jun. '24

 

Þessum mexíkanska rétt hefur verið tekið með opnum örmum af landsmönnum enda eru taco réttir fljótlegir og ferskir. Taco er einn af allra vinsælustu Eldum rétt réttunum frá upphafi og við fáum ekki nóg af því.

En hvað er taco nákvæmlega og hvaðan kemur þessi elskaði réttur?

 

Litlar sprengjur

Svarið er reyndar ekkert svar, enda er óþekkt nákvæmlega hvaðan rétturinn kemur því hann hefur verið til í einhverri mynd í mörg þúsund ár en á að öllum líkinda uppruna sinn að rekja til Mið-Ameríku. Nafngiftin á rætur sínar að rekja til verkamanna sem unnu í námugreftri í Mexíkó í kringum 19. öld en orðið taco var notað yfir pappír sem vafin var utan um dínamít og sett inn í holur til að sprengja upp berg. Sterka chillisósan inni í mat verkamanna minnti þá á þessar litlu pappírsvöfðu sprengjur og tóku þeir upp á að kalla réttinn taco. 

 

 

Salsasósan setur bragðið

Raunar mætti segja að nánast allir menningarhópar eigi sína útgáfu af matrétt sem byggist á grænmetis og/eða kjötfyllingu í brauðkenndum hjúp, svo sem empanada, pítur, crepes pönnukökur, kebab í brauði ofl. Það sem einkennir hins vegar taco er tortilla kakan, stökk eða mjúk, það er einkennisbúningurinn. Það eru skiptar skoðanir hvort taco megi teljast sem slíkt ef tortilla vefjan er ekki búin til úr maís en aðrir vilja meina að það sé salsasósan sem sé þungamiðjan í réttinum. Kryddin spila svo að sjálfsögðu stórt hlutverk í að skapa rétti sérstöðu, tacokryddið byggist á nokkrum meginbrögðum eins og hvítlauksdufti, papriku og að ógleymdu kúmin en það skapar þetta sérstaka bragð sem fær flesta til að sjá fyrir sér tacoveislu.

 

Tugir uppskrifta af taco

Þegar þessi grein er skrifuð hefur vöruþróunarteymi Eldum rétt útbúið 73 mismunandi uppskriftir af hvers kyns taco réttum. Taco með hakki, fiskitaco, rækjutaco, vegan taco... nefndu það!  Allt sem fellur í kramið hjá okkar viðskiptavinum. Landsmenn fá hreinlega ekki nóg af taco - enda algjör bomba!