Skip to main content

Spírur – lifandi matur? 

Við spírun aukast næringarefni í korni, belgjurt, grænmeti, hnetu eða fræi sem spíra, umtalsvert.

Birt 18. feb. '21

 

 

Látið fæði vera lækningu ykkar og lækninguna vera fæðið
Hippókrates, 440 árum fyrir Kristsburð. 

Um 2300 árum síðar sagði Thomas Edison:  „Læknir framtíðarinnar mun ekki vísa á nein lyf heldur vekja áhuga sjúklinga á að fyrirbyggja sjúkdóma með því að hlúa að líkama okkar með réttri fæðu”. 

Það er ekki skrýtið að þessi orð rifjist upp þegar talað er um spírur. Þær hafa verið notaðar til lækninga í Kína og austur – Asíu í árþúsundir. Síðustu áratugi hafa vinsældir þeirra svo farið hraðvaxandi í hinum vestræna heimi.  Spírur vaxa úr fræjum, korni og baunum og bera með sér alla þá næringarmöguleika sem í upphafi voru í fræinu / bauninni/ korninu – og meira til.  Spíran er háð vökvun, loftstreymi– og birtustigi. Best er að setja fræin/kornin/baunirnar í krukku með loki sem hefur verið gatað – hella vatni yfir og skipta því út á sólarhringsfresti. Á nokkrum dögum vaxa spírur, stútfullar af næringarefnum. Geymsluþol þeirra eftir að þær eru tilbúnar, þ.e.a.s. vatni eru hellt frá, eru nokkrir dagar í kæli.  

 

Næringarefni í baunaspírum eru ótal mörg, en meðal annars: 

  • A, B, C, E og K vítamín. 

  • Kalsíum, járn, magnesíum, fosfór, kalíum og zink. 

  • Karóten og klórófýl. 

  • Amínósýrur. 

  • Ýmis snefilefni. 

 

Hægt er að spíra margar mismunandi tegundir fræja, korna og bauna. 

Helstu tegundir spíra sem til eru á markaðnum: 

 

  • Bauna - og ertuspírur: Svo sem linsubaunir, adzuki, garbanzo, sojabaunir, mung baunir, svartar baunir, nýrnabaunir, grænar ertur og snjóertur. 
  • Spírað korn: Svo sem brún hrísgrjón, bókhveiti, amaranth, kamut , kínóa og hafrar. 
  • Grænmetis- eða lauf-spírur: Svo sem radísur, spergilkál, rauðrófur og smári. 
  • Hnetu- og fræspírur: Svo sem möndlur, radísur, alfalfafræ, graskersfræ, sesamfræ eða sólblómafræ.  

Spírur eru yfirleitt borðaðar hráar en einnig má léttsjóða þær.  

Spírur eru næringarríkar

Við spírun aukast næringarefni í korni, belgjurt, grænmeti, hnetu eða fræi sem spíra, umtalsvert. Þá getur neysla spíra hjálpað fólki með sykursýki af tegund 2 að stjórna blóðsykrinum betur. Þörf er á fleiri rannsóknum til að skýra þessa ferla betur.  

Spírur geta innihaldið talsvert magn óleysanlegra trefja, sem geta auðveldað meltingu. Ein rannsókn sýndi að 133% meira var af trefjum í spíruði korni en fræinu sjálfu, óspíruðu. Spírur geta einnig innihaldið minna glúten. Þá innihalda þær næringarefni sem bæta meltingarferlið enn frekar. 

Í dýrarannsóknum og rannsóknum á fólki með sykursýki af tegund 2 hafa komið fram vísbendingar um að aukin neysla á spírum minnki „slæmt“ LDL kólesteról, heildarkólesteról og þríglýseríðgildi í blóði, en jafnframt hækki „gott“ HDL kólesteról. 

 

Matareitrun hefur oft verið rakin til neyslu á spírum. Þær eru jú framleiddar við umhverfisaðstæður, þ.e. hita og rakastig, hvar skaðlegar bakteríur eins og E-coli og Samonella dafna líka vel. Spírur eru oftast borðaðar hráar sem eykur enn á áhættuna.  Börn, barnshafandi konur, aldraðir og fólk með veikt ónæmiskerfi ættu að íhuga að forðast neyslu hrárra spíra.  

Þrátt fyrir þessa matareitrunarhættu, er það staðreynd að spírur af öllu tagi eru mjög nærandi. Neysla þeirra getur haft margvíslegan heilsufarslegan ávinning, þ.mt auðveldari meltingu, betri blóðsykurgildi og minni hættu á hjartasjúkdómum. 

Fyrir flesta vegur ávinningurinn af því að borða hráar eða létt soðnar spírur  líklega meira en áhættan.  

Já, spírur eru eiginlega lifandi matur! 

 

 

 

 

Heimildir: 

https://www.healthline.com/nutrition/raw-sprouts 

https://www.healthline.com/nutrition/sulforaphane 

https://www.foundmyfitness.com/episodes/sfn-maximize 

https://www.youtube.com/watch?v=zz4YVJ4aRfg 

http://www.matis.is/media/utgafa/Naering_graenmeti.pdf