Skip to main content

Sælkerar af guðs náð

Listamennirnir og atvinnusælkerarnir Helga og Snorri koma nýjum uppskriftum Eldum rétt til leiða með þrálátri tilraunamennsku og brosi á vör. Þau eru himinlifandi með starfið og elska að sjá litla hugmynd enda sem kvöldmatur hjá stórum hópi landsmanna.  

Heimiliskokkar sitja flestir á uppskriftum sínum eins og ormar á gulli, enda oft um hernaðarleyndarmál að ræða. Hér á bæ er þessu öðruvísi farið. Hjá Eldum rétt er hugmyndin þvert á móti að henda sem allra flestum sannreyndum uppskriftum út í kosmósið og rakleiðis á diska landsmanna. Uppskriftirnar hlaupa á hundruðum, og eigum við þeim Helgu Sif Guðmundsdóttur og Snorra Guðmundssyni margar þeirra að þakka, en þau eru matgæðingar af guðs náð og skapandi handleggurinn á Eldum rétt. Með þrálátri smökkun, kryddun og almennri tilraunamennsku bæta þau enn nýjum uppskriftum í sarpinn, matgæðingum um allt land til mikillar ánægju.

Listfengi er mikilvægasta kryddið

Ég er myndlistarmaður með mikla matarást,“ segir Helga og virðir fyrir sér tilraunarétt dagsins af listrænni nákvæmni. Áður en hún hóf störf hjá Eldum rétt starfaði hún sem blaðamaður hjá Gestgjafanum og sem „freelance“ matarstílisti. Snorri á líka bakgrunn í listum, ekki í myndlist heldur hljóðhönnun. Í dag notast hann minna við eyrun og meira við nefið, tunguna og ekki síst augun. „Aðaláhuginn liggur í matargerð en ekki síður matarljósmyndun,“ segir hann og pírir augun. Hvers lags grænmetisrétt þau eru með í pípunum er ekki gott að segja, þótt lyktin sé góð, en listfengi ætlar augljóslega að verða mikilvægasta kryddið.

Kunni varla að sjóða egg

Ég hef alltaf haft áhuga á mat og er það heppinn að koma frá frekar ævintýragjörnu heimili þegar kemur að matargerð,“ segir Snorri um fyrstu skrefin í sælkerabransanum. „Áhuginn kviknaði fyrir alvöru þegar ég var í námi úti í Vancouver, sem er æðisleg matarborg.“

Eins má segja að Helga hafi sótt matreiðsluáhugann utan landsteinanna. „Eftir að ég útskrifaðist úr menntaskóla fóég að vinna sem kokkur á kaffihúsi sem er eiginlega ótrúlegt þar sem ég kunni varla að sjóða egg,“ segir hún. Áhuginn kviknaði síðan fyrir alvöru þegar Helga bjó í Danmörku, þar sem lífið fór fyrst og fremst að snúast um matargerð. „Ég bjóst samt aldrei við að þetta annars ágæta áhugamál mitt myndi síðar verða mín helsta atvinna en lífið er stundum dálítið óútreiknanlegt.“

Matargerðin nátengd myndlistinni

Stuttu eftir að Helga fluttist heim hóf hún störf sem blaðamaður í ritstjórn Gestgjafans. „Lífið snérist því um mat og matarmenningu allt frá því ég opnaði augun og þar til ég lagðist aftur á koddann,“ segir hún. „Matargerð, stíliseringar og áhugi á mat finnst mér vera mjög skapandi og nátengt myndlistinni.“

Líf Snorra fór líka að snúast um mat um leið og hann sneri heim. „Eftir að ég kom heim úr námi þá byrjaði ég með matarblogg og varð í framhaldi af því hugfanginn af matarljósmyndun. Það áhugamál þróaðist svo yfir í fulla vinnu hjá Eldum Rétt,“ segir hann. Ljósmyndaáhuginn hefur líka orðið til þess að Snorri heldur úti síðunni maturogmyndir.is

Þarf ekki nema að sjá af rétti

Bæði sammælast þau um að starfið hjá Eldum rétt sé skapandi, sem mann grunar að sé ein meginforsendan fyrir flestu sem þau taka sér fyrir hendur. „Að sjá eitthvað fara frá því að vera lítil hugmynd í að enda sem kvöldmatur hjá stórum hópi landsmanna er mjög gefandi,“ lýsir Helga. Þá skemmir ekki fyrir henni daginn þegar viðskiptavinurinn tjáir ánægju sína með matinn.

Oft verða hugmyndirnar til út frá nýjum hráefnum sem við erum að prófa,“ segir Snorri um sköpunarferlið hjá Eldum rétt. Þá sé mikilvægt að fylgjast með mat á netinu, í bókum og tímaritum. „Svo er ég sérstaklega veikur fyrir matreiðsluþáttum og keppnum í sjónvarpinu.“ Eins og áður segir er myndlistin samofinn sælkerastarfi Helgu. „ Ég þarf stundum ekki nema að sjá mynd af einhverjum rétti og þá er ég farin á flug,“ segir hún.

Aðspurð hvort þau eldi heima svara þau bæði játandi – Snorri sér sig hins vegar knúinn til að taka fram að konan hans sé líka afbragðs kokkur á meðan Helga telur það mesta furða að hún nenni yfirleitt að elda þegar heim er komið. Svona að lokum, hvaða hráefni verður alltaf að vera til heima hjá ykkur? „Sítrónur, egg og beikon eru ómissandi hráefni,“ svarar Helga. „Síðan verður að sjálfsögðu að vera til pasta í búrinu.“ Snorri er ekki lengi að svara: Sambal oelek, kóríander og kjúklingur.“

 

Við mælum með að þið fylgið þeim á instagram helgasifstyling og maturogmyndir