Rauðrófan er rótargrænmeti sem er yfirleitt dökkrautt eða fjólublátt á lit. Rauðrófurækt á Íslandi hefur farið vaxandi undanfarin ár, og þrátt fyrir nafnið þá geta þær rauðrófutegundir sem þrífast í íslenskum görðum verið í hinum ýmsu litum, t.d. hvítar, gular, appelsínugular og jafnvel marglitar. Þær voru upphaflega ræktaðar af Rómverjum, eru mikilvægur hluti af þjóðarréttum Eystrasaltslandanna og hafa notið nýrrar bylgju vinsælda á undanförnum árum. Þær hafa lengi átt stað í íslenskri matargerð en þá helst verið borðaðar sultaðar í krukku undir danska nafninu rauðbeður, en það var ekki fyrr en tiltölulega nýlega sem íslendingar fóru að borða þær ferskar.
Rauðrófur hafa mikið verið rannsakaðar sem heilsubætandi fæða undanfarin ár. Eitt af því sem vakið hefur áhuga rannsakanda eru jákvæð áhrif rauðrófunnar á blóðþrýsting. Þar að auki hafa ýmsar rannsóknir leitt í ljós að betacyanin, rauð-fjólubláa litarefnið í rauðrófunum, geti haft jákvæð áhrif á virkni lifrarinnar. Það hefur sýnt sig að efnið auki virkni andoxunarefna í lifrinni, sem á þátt í því að brjóta niður og fjarlægja alkohól úr lifrinni. Sem þýðir að rauðrófusafi geti virkað sem hinn fínasti þynnkubani.
Að elda rauðrófur
Rauðrófur eru góðar bæði kaldar og heitar, ristaðar, soðnar eða ferskar. Gott er að rista þær, annaðhvort heilar eða niðurskornar, á lágum hita neðst í ofninum með ólífuolíu og dassi af vatni til að þær hitni alveg í gegn. Hægt að baka þær í ofninum þar til þær eru orðnar ágætilega mjúkar, taka þær út, bæta síðan til dæmis feta eða geitaosti, vorlauki og valhnetum, og stinga aftur inn í ofn í stutta stund. Einnig er hægt að taka þær út úr ofninum og kæla, og blanda síðan við ferskt salat eins og grænkál eða spínat.
Rauðrófur eru mikið notaðar kaldar í þeytinga og djúsa. Hægt að nota hráar rauðrófur í þeytinga en þá verða þeir kornóttari og grófari. Þær eiga samleið með fersku grænmeti og ávöxtum eins og til dæmis grænum eplum, gulrótarsafa, spínati og engifer, en passa líka í mýkri þeytinga með bönunum, möndlumjólk og berjum.
Það mikilvægasta við að velja rauðrófur er að húðin sé heil, en ef þær eru mjúkar viðkomu er hægt að geyma þær í kæliskáp í nokkra daga til að endurheimta stífleikann. Þær geymast í nokkrar vikur á dimmum og köldum stað, en uppskerutíð þeirra á Íslandi er uppúr miðjum ágúst og frameftir haustinu, svo best er að neyta þeirra þá.
Hvernig á að meðhöndla rauðrófur án þess að allt verði rautt?
Aðal áhyggjuefnið við að elda rauðrófur er hvað þær lita mikið út frá sér, enda rauði liturinn mjög sterkur og er stundum erfitt að ná honum úr fötum. Til þess að koma í veg fyrir að eyðileggja fötin sín er gott að passa að skræla rófurnar ekki of mikið áður en þær eru eldaðar. Helst skal láta nægja að þvo þær vandlega, annars byrjar rauði liturinn að blæða út. Hægt er að vera með hanska þegar þær eru skornar, en rauði liturinn næst þó af fingrum með smá sápu og þolinmæði, eða með því að þvo hendurnar upp úr sítrónusafa. Fínt er að hafa svuntu við hendina og að þurrka rauða safann upp sem fyrst með blautri tusku ef hann lendir á óæskilegum stað.