Skip to main content

Paleo-morgunmatur – tillögur og góð ráð

Fáðu hugmyndir af Paleo-morgunmat

Til eru ótal hugmyndir af Paleo-morgunmat og það þarf ekki annað en að Googla eða kíkja á Pinterest til að finna tonn af uppskriftum. Fólk hefur samt mjög misjafnar skoðanir á því hvað telst góður Paleo-morgunmatur. Sumir verða að fá egg og Paleo-vænt beikon á meðan aðrir vilja helst eitthvað sem líkist morgunkorni, til dæmis granóla eða chia-grauta.  

Það er ekki slæm hugmynd að koma sér upp föstum venjum, til dæmis að fá sér eitthvað einfalt í morgunmat á virkum dögum en gera vel við sig í morgunmatnum um helgar. Einfaldleikinn felst oftar en ekki í því að finna sér morgunmat sem er hægt að undirbúa fram í tímann og þarf til dæmis bara að hita upp. 

Á virkum dögum: 

  • Egg og Paleo-vænt beikon 
  • Paleo-vænt granóla með ósætri möndlumjólk 
  • Eggjakökumöffins með skinku og grænmeti (geymist ágætlega í ísskáp) 
  • Paleo „hafragrautur“ með ferskum ávöxtum eða berjum 

Um helgar: 

  • Paleo-pönnukökur með ferskum berjum 
  • Paleo-vöfflur 
  • Kanil- og rúsínubrauð  
  • Beikon- og sætkartöflupanna með spældu eggi 
  • Egg og aspas vafinn í hráskinku 

Plís, eitthvað annað en egg í Paleo-morgunmatinn minn 

Við heyrum oft um nútímasteinaldarmenn- og konur sem eru komin með algjört ógeð á eggjum í morgunsárið. Ef staðan er þannig, þá borgar sig að leggjast í rannsóknarvinnu og prófa sig áfram með eggjalausar uppskriftir. Það er svo ótalmargt í boði og engin ástæða til að fá sér ristað brauð eða vera svangur. 

Hindber

Paleo-morgunmatur fyrir sætindagrísi 

Fyrrverandi kókópöffstýpurnar gætu viljað eitthvað eins og: 

  • Sætkartöflugraut með möndlusmjöri og berjum 
  • Paleo-væna morgunverðarstöng með hnetum og hunangi 
  • Banana með hnetusmjöri og granóla 

Svo má líka bara fá sér afganga 

Það kippir sér enginn upp við að þú fáir þér kvöldmat í morgunmat. Fjölmargir áskrifendur af Paleo-pakkanum okkar panta sér hreinlega stærri skammta og fá sér afgang í morgunmat eða taka með sér hádegismat í vinnuna daginn eftir.