Skip to main content

Minnkum matarsóun!

Talið er að um 1/3 matvæla sem framleiddur er í heiminum endi í ruslinu.

Hvernig stendur á því að við séum að sóa svona miklum mat? Öll höfum við einhvern tímann á lífsleiðinni gerst sek um að henda mat fyrir þær einföldu sakir að hann var skemmdur. Lausnin hlýtur því að vera að koma í veg fyrir að láta matinn skemmast. Ef öll heimili landsins sjá til þess að maturinn skemmist ekki er þá vandamálið ekki leyst? Þegar kafað er aðeins dýpra í þetta málefni virðist vandinn vera aðeins flóknari en svo. Matarsóun á sér stað í allri framleiðslukeðjunni og til að átta sig betur á vandamálinu skulum við taka grænmeti sem dæmi.

Hér er upplistun á framleiðslukeðjunni ásamt dæmum um hvers konar sóun geti átt sér stað:

  • Uppskera (tæki og áhöld geta kramið og skemmt grænmetið)
  • Meðhöndlun eftir uppskeru (ýmist hnjask getur átt sér stað við meðhöndlun og flutninga)
  • Framleiðsla (grænmeti sem uppfyllir ekki útlitskröfur er hent)
  • Dreifing (yfirleitt er öllum mat hent sem er kominn fram yfir söludag/neysludag)
  • Neysla (meiri matur keyptur en þörf er á, afgangnum sem skemmist er þá hent)

Kolefnisfótspor matarsóunar 

Umhverfisáhrif af matvælaframleiðslu, flutningi matvæla og geymslu þeirra eru mikil. Það er hægt að hugsa það þannig, að ef matarsóun væri land, væri hún með þriðja hæsta kolefnisfótsporið í heiminum, næst á eftir Kína og Bandaríkjunum.

Hvernig þú getur minnkað matarsóun?

Ein besta leiðin til að minnka matarsóun á heimilinu er að skipuleggja innkaup vel, búa til matseðla og ákveða fram í tímann hvað á að elda og hversu mikið. Það væri þægilegt ef til væri lausn sem myndi sjá um þetta fyrir mann... segjum ekki orð um það meir.

Horfum til framtíðar 

Sem betur fer er fólk mun meðvitaðra nú en áður um matarsóun og mörg fyrirtæki, félagasamtök og grasrótarsamtök staðráðin í að gera sitt til að minnka matarsóun á Íslandi. Við hjá Eldum rétt erum stolt af því að leggja hönd á plóg og erum bjartsýn á framtíðina í þessum málum.

Áhugavert efni

Ef þú vilt fá betri innsýn og skilning á þessu málefni höfum við sett inn nokkra hlekki hér fyrir neðan:

  • Just eat it er áhugaverð heimildarmynd sem gefur góða innsýn inn í hversu miklum mat er raunverulega verið að sóa. Jen og Peg eru kvikmynda- og mataráhugafólk sem taka það á sínar herðar að komast að hvort og þá hversu mikið vandamál matarsóunin sé (https://vimeo.com/ondemand/justeatit/88023628).
  • Umhverfisstofnun heldur úti vefsvæði um matarsóun (www.matarsoun.is)
  • Hér er ýtarleg skýrsla um matarsóun unnin af Swedish Institute for Food and Biotechnology (SIK) fyrir Food and Agriculture Organization of the United Nations (FAO) (http://www.fao.org/docrep/014/mb060e/mb060e00.pdf)