Skip to main content

Mikilvægi trefja gegn krabbameinum

Hægt er að koma í veg fyrir 4 af hverjum 10 krabbameinum með forvörnum.

Birt 28. feb. '19

Mataræðið er einn af þeim þáttum sem skipta máli til að draga úr líkum á krabbameinum og öðrum sjúkdómum. Trefjar leika þar veigamikið hlutverk og geta skipt miklu máli fyrir heilsuna. Trefjar eru í heilkornavörum eins og heilkornabrauði, rúgbrauði (helst skyldi velja ósætt rúgbrauð), haframjöli, byggi, heilhveitipasta og hýðishrísgrjónum. Trefjar eru einnig að finna í ávöxtum, grænmeti, baunum, hnetum og fræjum.

 

Embætti landlæknis mælir með því að borða heilkornavörur að minnsta kosti tvisvar sinnum á dag, 500 grömm af ávöxtum og grænmeti, um hnefafylli af hnetum eða fræjum og baunir reglulega. Með þessu tryggjum við nægt magn af trefjum og öðrum nauðsynlegum vítamínum og steinefnum. Ef kornvörur eru merktar með Skráargatinu innihalda þær ríflega af trefjum.
 

Af hverju skipta trefjar máli?

Trefjar eru ýmist vatnsleysanlegar eða óvatnsleysanlegar og gegna margvíslegum hlutverkum í líkamanum. Því er mikilvægt að borða fjölbreytta fæðu úr jurtaríkinu til þess að fá nóg af öllum gerðum trefja. Neysla þeirra hefur einnig jákvæð áhrif á þarmaflóruna í ristlinum. Sjálf getum við ekki brotið niður trefjar í meltingarveginum en ákveðnar bakteríur í ristlinum geta nýtt þær til að mynda stuttar fitusýrur sem nýtast líkamanum vel.  Trefjar binda líka hluta af kólesterólinu í meltingarveginum og skila því út með hægðunum.

Þegar við borðum trefjaríkt fæði erum við lengur að melta fæðuna. Því lengur sem við erum södd, því minni líkur eru á að við borðum meira en við þurfum og  þyngjumst þá síður. Auk þess fara næringarefni eins og glúkósi hægar útí blóðrásina eftir máltíð sem er rík af trefjum. Það er jákvætt af því að þá þurfum við minna insúlín til að koma sykrinum í frumur líkamans.

Helstu kostir þess að innbyrða trefjar daglega er að hægðir verða reglulegri (minni hætta á hægðartregðu) og líkur á ristilkrabbameini, hjarta- og æðasjúkdómum og sykursýki af tegund tvö minnka.
 

Krabbamein í ristli og endaþarmi

Krabbamein í ristli og endaþarmi er þriðja algengasta krabbameinið í heiminum og önnur algengasta dánarorsökin af völdum krabbameina. Að meðaltali greinast 175 manns á ári á Íslandi með þennan sjúkdóm og 67 látast árlega af völdum hans. Þetta er annað algengasta krabbamein hjá körlum á Íslandi og það þriðja hjá konum.

Samkvæmt fjölda rannsókna er hægt að minnka líkur á krabbameini í ristli og endaþarmi með því að hreyfa sig reglulega, borða trefjaríkt fæði, kalkríkar vörur, lítið af rauðu kjöti og unnum kjötvörum og drekka hóflega af áfengi eða sleppa því. Einnig eru vísbendingar um að góður D-vítamínbúskapur geti minnkað líkur á þessari gerð krabbameins.

 

Helstu einkenni ristilkrabbameins geta verið breytingar á hægðum eins og niðurgangur eða hægðartregða sem varir í nokkrar vikur, blóð í hægðum, stöðugur kviðverkur og óútskýrt þyngdartap. Verði slíkra einkenna vart er ráðlagt að panta tíma hjá lækni.

 

Höfundur: Jóhanna E. Torfadóttir, næringar- og lýðheilsufræðingur og sérfræðingur í forvörnum hjá Krabbameinsfélagi Íslands