Skip to main content

Mangó - einn vinsælasti ávöxtur heims

Bráðhollur ávöxtur sneisafullur af vítamínum og trefjum

Birt 05. Jun. '18

Mangó er einn vinsælasti ávöxtur heims en hann á uppruna að rekja til Suður-Asíu. Margir Vesturlandabúar myndu eflaust telja að bananar eða epli væru vinsælli en þegar litið er á neyslu ávaxta á heimsvísu kemur í ljós að mangó er mun sigurstranglegri enda eitt af helstu undirstöðuhráefnum í matargerð á Indlandi, Suður-Asíu, Kína og Rómönsku Ameríku

Mangó vex á mangótrjám sem langflest eru villt í Suður-Asíu en trén verða allt að 40 metra há og til erum dæmi um það að 300 ára gömul tré beri ávextina.

Ávöxturinn hefur verið ræktaður í Suður-Asíu í þúsundir ára en hefur á síðustu þúsund árum smátt og smátt breiðst út um heiminn. Í dag er hann ræktaður í flestöllum löndum þar sem ekki frystir og kemur um helmingur allra mangóa frá Indlandi.

Þúsundir mangó-tegunda

Til eru um 2000 tegundir af mangó og eru mangó-bændur oft með margar gerðir mangótrjáa til að gera frjóvgun sem auðveldasta. Ávöxturinn er ræktaður ekki ósvipað eplum, þar sem mörgum tegundum er oft blandað saman til að gera eina ákveðna tegund, en það er ekki hægt að rækta upp epla- eða mangótré frá steinum þessara ávaxta.

Algengasta og vinsælasta mangótegundin í heiminum í dag er hið svokallaða Tommy Atkins-mangó, sem var ræktað út frá Haden-mangóinu sem var fyrst ræktað í Flórída á 5. áratug síðustu aldar og þótti fyrst um sinn ekki nógu góður ávöxtur. En Tommy Atkins-mangóið er bragðgott, endist lengi, það er auðvelt að flytja það, er í hentugri stærð og hefur fallegan lit.

Mangó er mikið notað í alls kyns mat. Það er hægt að elda þau í mauk og borða með grænum chili-pipar og hrísgrjónum, borða þau hrá með salti, sojasósu eða chili-pipar, nota þau í karrí-rétti, í „smoothie“-drykki, setja þau út í salatið, eða hreinlega borða þau ein og sér.

Þroskuð mangó eru með rautt eða gulgrænt hýði, en mangó eru yfirleitt flutt milli landa áður en þau eru þroskuð svo þau endist lengur. Inni í þeim er stór flatur steinn og það getur verið erfitt að ná ávaxtakjötinu utan af honum.

Svona skerðu mangó

Til að ná mangókjötinu með sem bestum hætti er gott að skera þétt með fram steininum og skera síðan lóðrétt og því næst lárétt í kjötið án þess að skera í gegnum hýðið. Því næst er hægt að nota skeið eða hníf til að losa kjötið frá hýðinu.

Mangó er bráðhollur ávöxtur sneisafullur af vítamínum og trefjum. Í 100 grömmum af ávextinum eru um 60 kaloríur, 13.7 grömm af sykri, 1.6 grömm af trefjum og 44% af ráðlögðum dagskammti af C-vítamíni.

Eins og sést er mangó nytsamlegt í alls kyns matargerð hvort sem er einfalt salat eða flóknari réttir. En oft er hreinlega ekki tími til að flækja málið og þá er langbest að fá sér bara mangó eitt og sér og njóta, enda einstaklega hollur og góður ávöxtur.