Skip to main content

Kjúklingabaunir

Baunirnar sem eiga ekkert skylt við kjúkling

Birt 20. Aug. '18

Kjúklingabaunir, einnig kallaðar kíkertur á íslensku,  hafa verið ræktaðar í Mið-Austurlöndum síðan um 7500 fyrir Krist en í dag framleiðir Indland um 64% af öllum kjúklingabaunum í heiminum. Baunirnar eru afar vinsælar í Mid-Austurenskum réttum en bæði falafel og hummus er búið til úr þeim og þýðir hummus í raun bara kjúklingabaunir.

Næringargildi

Kjúklingabaunir eru þótt undarlegt megi virðast akkúrat ekkert skyldar kjúklingum. Nafnið er tilkomið frá enska nafninu chickpeas sem aftur kemur frá franska nafninu ciche, svo er dregið af latneska heitinu cicer (þaðan sem íslenska nafnið kíkertur er svo dregið). En þessar baunir eru mjög næringamiklar og í hverjum 100g færðu 20% eða yfir af ráðlögðum dagsskammti af próteini, trefjum, járni og fosfóri. En auðvitað eru fjölmörg önnur vítamín, steinefni og annað í baununum. Það eru um 164 kílókaloríur í 100g og eru baunirnar um 60% vatn, 27% kolvetni, 9% prótein og 3% fita.

Eins og fyrr segir, eru kjúklingabaunir aðaluppistaðan í falafel og hummus, en það sem færri vita er að ef baunirnar eru ristaðar þá er hægt að mala þær og nota líkt og kaffi. Í fyrri heimsstyrjöldinni var ekki óalgengt að þetta væri gert og voru þær ræktaðar í Þýskalandi til þessa brúks.

Hvernig á að matreiða kjúklingabaunir?

Ef þú ert með niðursoðnar kjúklingabaunir, þá eru þær tilbúnar í þann rétt sem þú ætlar þér að nota þær í. Ef þú ert hins vegar með þurrar þá verður að leggja þær í bleyti og svo sjóða þær.

Fyrst af öllu er gott að vita að eldaðar baunir taka um fjórfalt pláss miðað við óeldaðar. Sem sagt, ef þú ert með einn desílítra af þurrum baunum, þá færð fjóra desílítra þegar þær eru eldaðar.

Best er að leggja baunirnar í bleyti, með nóg af vatni, yfir nótt eða í 8-10 tíma. Næst þarf að láta þær malla í um það bil tvo tíma. Ef þú nennir ekki að bíða í marga klukkutíma eftir því að baunirnar drekki í sig vatnið, geturðu sett þær í pott, látið sjóða í fimm mínútur og svo standa í klukkutíma. Því næst sýðurðu þær í um það bil tvo tíma. Mundu að hafa lok á pottinum á meðan þær sjóða.

Eldaðar baunir geymast í 3-4 daga inni í ísskáp en það er líka hægt að frysta þær. Passaðu bara að þurrka þær vel áður en þú fyrstir.