Skip to main content

Hvernig veit maður hvenær lárpera er passlega þroskuð?

Lærðu að þekkja rétt útlit og áferð á þroskuðu avókadó

Birt 14. mar. '18

Lárpera er ein af þessum ávaxtategundum sem erfitt er að ná rétt. Stundum virðist eins og hún sé fullkomin í nokkrar sekúndur og ef maður nær henni ekki á þeim tíma er öll biðin til einskis.

En ekki örvænta! Ef þú þekkir ávöxtinn, þá getur þú áætlað nokkuð vel hvort lárperan sé góð til átu eða ekki (bara svona eins og með bananana).

Það fyrsta sem þarf að hafa í huga er liturinn á ávextinum. Því dekkri sem hann er að utan, því þroskaðri er ávöxturinn. Þannig að ef þú sérð vel græna lárperu, eru nokkuð góðar líkur á því að það séu nokkrir dagar í það að hún sé góð til matreiðslu.

Næst skaltu taka ávöxtinn upp og setja hann í lófann. Kreistu létt án þess að nota fingurgómana og finndu þannig hversu mjúkur eða harður hann er.

Hörð lárpera – 4-5 dagar í þroska

Ef lárperan er hörð, þá er hún ekki þroskuð og það eru 4-5 dagar þar til hún er tilbúin. Þessar lárperur eru vel grænar að utan, eins og fyrr segir. Geymdu hana á borði við stofuhita en ef þú vilt flýta fyrir þroskanum geturðu sett hana í bréfpoka með eplum eða banönum.

Næstum þroskuð lárpera – 1-2 dagar í þroska

Þessar lárperur eru á ensku kallaðar „breaking“ en litur hennar getur verið mismunandi að utan og því er best að þreifa á þeim til að finna hversu harðar þær eru. Þessar lárperur munu vera aðeins mýkri en þær óþroskuðu en þó ekki svo mjúkar að þær gefi alveg eftir. Ef þú skerð svona lárperu í tvennt muntu eiga erfitt með að ná steininum úr miðjunni og það er erfitt að stappa kjötið. Það mun taka 1-2 daga við stofuhita fyrir þessa lárperu að þroskast.

Þroskuð lárpera – tilbúin til átu

Ef lárperan gefur eftir þegar þú kreistir hana þá veistu að hún er þroskuð. Þessar lárperur eru yfirleitt dekkri að lita að utan en það kemur fyrir að þær geti verið ljósari að lit og því er best að þukla vel á henni til að ákvarða hvort hún sé þroskuð eða ekki. Þessi lárpera er best akkúrat núna en ef þú ætlar að geyma hana í 1-2 daga, þá þarftu að geyma hana í kæli.

Ofþroskuð lárpera – ónýt

Það fer eiginlega ekki milli mála þegar lárpera er ofþroskuð. Hún er mjög mjúk og auðvelt að kremja hana. Kjötið er dökkgult eða brúnt að lit. Ónýt lárpera gefur af sér vonda lykt og mygla er jafnvel farin að myndast. Ef það eru nokkrir brúnir blettir í kjötinu er það hins vegar ekki merki um að ávöxturinn sé ónýtur heldur að hann sé marinn.

Nú ætti þér að vera óhætt að fara í búðina og finna hina fullkomnu lárperu, eða kaupa óþroskaða lárperu og vita hversu lengi þú þarft að bíða eftir að geta borðað hana.