Skip to main content

Hvað er paleo-mataræðið?

Hvað er okkur mannfólkinu eðlilegast að borða? Horft til fortíðar.

Birt 04. Oct. '17

Paleo-mataræðið er oft kallað steinaldarmataræðið. Talið er að nútímafólk eigi það til að borða of mikið af óhollri fitu, viðbættum sykri, og glúteinríkri fæðu. Margir vilja meina að slíkt mataræði stuðli að lífstílssjúkdómum, offitu og jafnvel alvarlegri sjúkdómum. Þeir sem aðhyllast paleo-mataræðið borða eins og við gætum ímyndað okkur að steinaldarmenn hafi borðað (í grófum dráttum a.m.k.) fyrir u.þ.b. 2,5 milljónum árum síðan. Það var fyrir tíma landbúnaðarbyltingarinnar sem hafði það í för með sér að neysla fólks á ýmiskonar korni, sykri og mjólkurvörum jókst til muna. Fyrir þann tíma borðaði fólk mest dýraafurðir, ávexti eftir árstíðum, grænmeti sem óx villt í náttúrunni og eitthvað af fræjum, hnetum og þess háttar.

Paleo-hugmyndafræðin grundvallast á þeirri hugmyndafræði að það henti mun betur líkamsgerð okkar að neita steinaldarmataræðis. Meginástæðan sé sú að áður en mannkynið hafi kynnst landbúnaðarvörum hafi líkami þess verið búinn að þróast til að vinna best úr ofangreindum fæðutegundum og hafi því ekki verið gerður til að melta korn-, sykur- og mjólkurvörur.

Paleo-mataræðið sem við hjá Eldum rétt fylgjum er kallað Paleo 2.0. Það samanstendur að mestu leyti af próteini úr dýraríkinu þ.e. kjöti, fiski, eggjum og kolvetnum úr grænmeti og ávöxtum ásamt hnetum í hófi eða í meðallagi. Í grunninn er paleo-mataræðið frekar einfalt og byggist á því sem við köllum „hreinan mat“. Auðvitað er aldrei hægt að líkja fullkomlega eftir mataræði steinaldarmanna en hugmyndafræðin er góð og hefur gefið mjög góða raun við að halda lífstílssjúkdómum í skefjum svo sem eins og glúteinóþoli, mjólkuróþoli ofl.

Paleo er ekki lágkolvetnamataræði.

Margir telja að það að tileinka sér paleo mataræði sé það sama og að tileinka sér lágkolvetna lífsstíl. En sú er ekki raunin. Paleo mataræði er fyrst og fremst glútein- og mjólkurlaust fæði með áherslu á hreinan mat þ.e. mat án aukaefna. Fyrir þær sakir hafa margir talið að það að vera á paleo sé sjálfkrafa ávísun um að það eigi að sleppa alfarið t.d. ljósum kartöflum vegna þess að þær séu svo sterkju- og kolvetnaríkar. 

Kolvetni sem næringarefni er ekki óhollt fyrir heilbrigða manneskju enda er það eitt aðal næringarefni heilans. Hinsvegar er það eitthvað sem fólk með sykursýki og sjálfsofnæmissjúkdóma þarf að halda í lágmarki. Einnig er mælt með því að draga úr kolvetnum tímabundið fyrir fólk sem þarf að léttast og því oft hentugt að lágmarka neyslu kartafla, neyslu á þurrkuðum ávöxtum og hnetum.  Það sem mælir gegn því að fólk á paleo fæði borði kartöflur eru eiturefni sem þær gætu innihaldið. Kartöflur sem eru ræktaðar við góð skilyrði og án eiturefna ættu því að vera hollur og góður kostur.

Sætar kartöflur hafa verið mun vinsælli hjá þeim sem vilja draga úr kolvetnisneyslu enda telja margir að ljósar kartöflur séu lítið annað en kolvetni. Staðreyndin er nú samt sú að séu þessar tvær tegundir bornar saman kemur í ljós að í 100 g af sætum kartöflum eru 17 g af kolvetnum á móti 20 g í ljósum kartöflum. Einnig eru ljósar kartöflur mjög næringa- og vítamínríkar sem dæmi innihalda ljósar kartöflur 33% af C-vítamíni á móti 4% í sætum. Þegar kemur að A-vítamíni eru þær sætu í vinningssæti. Því mætti telja að gullinn meðalvegur fjölbreytts mataræðis án aukaefna sé málið.

Hvað á að borða á Paleo-mataræðinu?


Holla fitu, t.d. ólífuolíu, avókadóolíu, kókosolíu, dýrafitu.
Kjöt, t.d. lambakjöt, nautakjöt, kjúkling o.sv.frv.
Innmat. Lifur, nýru, merg, hjörtu o.s.frv.
Fisk og aðra sjávarrétti. Til dæmis lax, silung, ýsu, þorsk, rækjur og annan skelfisk.
Egg. Best ef þau eru úr hamingjusömum hænum.
Grænmeti, allar tegundir.
Sýrt grænmeti, t.d. súrkál og kimchi (svo lengi sem það er sykurlaust).
Ávexti og ber. Til dæmis epli, banana, perur, avókadó, jarðarber og þess háttar.
Hnetur og fræ. Til dæmis valhnetur, möndlur, graskersfræ, sólblómafræ.
Salt og krydd án aukaefna og sykurs.
Hreint hunang, hreint hlynsíróp og stevia ásamt þurrkuðum ávöxtum. 

Hvað á ekki að borða á Paleo-mataræðinu?


Sykur og maíssýróp. Til dæmis gosdrykki, sælgæti, kökur, ís og þess háttar.
Unnar matvörur. Til dæmis snakk, pakkamat og annan mat blandaðan aukaefnum.
Mjólkurvörur. 
Baunir. Allar tegundir bauna eru óæskilegar á Paleo-mataræðinu.
Kornvörur. Til dæmis hveiti, spelt, brauð, pasta, rúgmjöl og þess háttar.
Gervisykur. Til dæmis aspartame, sucralose, saccharin.
Transfitur og grænmetisolíur. Til dæmis smjörlíki, sojabaunaolíu, jarðhnetuolíu og canola-olíu.