Uppruni og útbreiðsla
Granatepli er rauðleitur, safaríkur ávöxtur sem á uppruna að rekja til héraða sem ná allt frá Himalaya til Mið-Austurlanda. Sumar heimildir vilja meina að ávöxturinn komi frá Íran, áður Persíu og enn aðrar benda til NV-Indlands. Enginn efast þó um að granatepli hafi verið ræktað í margar aldir víða um heim m.a. í Asíu, Afríku og við Miðjararhafið og er hægt að finna heimildir um það í öllum helstu helgiritum trúarbragða.
Granatepli bárust með spænskum landnemum til Ameríku og er aðalræktarsvæðið í Kaliforníu og Arizona. Á þeim slóðum er algengast að framleiddur sé safi úr fræum þeirra.
Stærsta ræktar- og útflutningssvæði granatepla er á Indlandi, en þar eru granatepli ræktuð allt árið um kring og fer stór hluti uppskerunnar í útflutning til m.a. Arabísku furstadæmanna, Bretlands, Bandaríkjanna og Kanada. Aðrir stórir útflutningsaðilar eru Spánverjar og Íranir.
Rauð fræ granatepla eru laginu eins og ber en þau eru afar safa- og næringarrík. Þau eru ýmist borðuð ein og sér, út á salöt, morgunverðarskálar og í sjeika. Fræin eru talin mjög heilsubætandi og hafi fyrirbyggjandi áhrif á ýmsa sjúkdóma.
Hollusta
Sú staðreynd að granatepli séu góð fyrir heilsuna er engin þjóðsaga en til eru margar vísindalegar rannsóknir sem styðja það. Fræin eru rómuð fyrir andoxunaráhrif, eru stútfull af t.d. A-vítamíni sem styrkir m.a. sjón og bein og E-vítamíni sem bætir t.a.m. blóðflæði og hægir á öldrun, ásamt því eru granatepli C-vítamín- og trefjarík. Safi granatepla dregur úr sykursýki 2 en sú tegund sykursýki er hægt að leiðrétta með réttu mataræði. Þau eru bólgueyðandi og talin draga úr liðagigt ásamt því að stuðla að lækkun á of háum blóðþrýstingi og kólestróli í blóði. Fundin hafa verið tengsl milli neyslu granatepla og hægingu á myndun krabbameinsfruma m.a. í blöðruhálskirtilskrabbameini og hvítblæði.
Margir hafa upplifað að erfitt sé að kjarnhreinsa granatepli án þess að safinn spýtist um allt. Ef notuð er rétt tækni er það hinsvegar mjög einfalt (sjá neðan).
Gæði og þroski granatepla
Þegar bera á kennsl á gæði og þroska granateplis er best að skoða hýðið vel. Þroskað granatepli í góðum gæðum er með glansandi og slétt hýði. Brúnleitir blettir og mislitt hýði bera merki þess að ávöxturinn sé farinn að skemmast. Einnig er gott að banka í granateplið og ætti þá að heyrast tómahljóð sem þýðir að ávöxturinn sé safaríkur. Safaríkt granatepli ætti einnig að vera frekar þungt í sér miðað við stærð.
Annað sem ágætt er að hafa í huga varðandi þroska granatepla er að ólíkt mörgum ávöxtum þá heldur granateplið ekki áfram að þroskast eftir að það hefur verið týnt.