Skip to main content

Geta fæðubótarefni komið í staðinn fyrir hollan og góðan mat?

.

Fyrr á tímum treystum við eingöngu á mat til að tryggja okkur þá næringu sem við þurfum til að halda heilsu, en æ meir er fólk farið að treysta á að fá daglega nægju sína úr vítamín- og steinefna bættum matvælum, pillum og fæðubótarefnum frekar en mat. Sala á bætiefnum hefur aldrei verið meiri og nýir fæðubótardrykkir, duft og vítamín- og steinefnabætt matvæli skjóta upp kollinum á hverju ári.

Það að við höfum aðgang að bætiefnum er góð þróun, það fer ekki á milli mála að uppbótar meðferð er oft nauðsynleg og má þar nefna D-vítamín inntöku fyrir fólk á norður slóðum, B-12 fyrir fólk sem tekur vítamínið illa upp í meltingarvegi og svo uppbót fyrir hvers kyns klínískan skort. Ekki er sett út á þess kyns þarfa uppbót í þessari grein, heldur verður því velt fyrir hvort unnin vítamín séu sambærileg við þau sem við fást náttúrulega úr mat og hvort það sé í lagi að treysta á að pillur, duft og fæðubót til jafns á við mat hvað varðar almenna vítamín og steinefnaþörf.

Vítamín og steinefni

Vítamín eru litlar lífrænar sameindir sem við þurfum lífsnauðsynlega á að halda þar sem við getum ekki framleitt þær sjálf, eða eigum erfitt með það. Steinefni eru aftur á móti ólífrænar sameindir sem við þurfum í litlu magni en eru alveg jafn mikilvægar. Nánast öll vítamín og steinefni af þessu tagi eru annað hvort einangruð úr fæðu eða hreinlega búin til á rannsóknarstofum. Það er góð ástæða fyrir því þar sem tilbúnu efnin eru ódýrari og yfirleitt stöðugri og endast því betur.

Einangruð efni

Hvergi í náttúrunni færðu eitt einangrað vítamín eitt og sér, nokkurn tímann. Sem dæmi má nefna að Beta-karótín bara eitt af um 50 virkum efnum í flokki karótínóíða. Þegar við neytum gulra og appelsínugulra ávaxta eða grænmeti sem ríkir eru af beta-karótíni þá fylgja mörg önnur karótínóíð með. En í pillum og vítamínbættum matvælum er aðeins beta-karótínið. Þetta er líkamanum ónáttúrulegt. Mörg vítamín vinna nefnilega með öðrum næringarefnum eftir leiðum sem við höfum enn ekki fullan skilning á.

Náttúrulega koma vítamín í einskonar ,,pakka" þar sem finna má vítamín, steinefni, trefjar, vökva og önnur plöntuefni í vissum hlutföllum sem vinna saman og mynda eina heild. Helst ber að nefna D-vítamínið í mjólkurafurðum sem hjálpar til við upptöku kalksins í henni og sömuleiðis er mikilvægt að hafa magnesíum og fosfór með í jöfnunni. Einnig eykur C-vítamínið í spínati upptöku járnsins sem þar er líka að finna. Þar að auki eru oft fleiri en ein mynd af tilteknu virku efni, til dæmis eru allt að 100 ísómerar af E-vítamíni en einungis 16 þeirra eru búnir til á rannsóknarstofum og settir í pillur og matvæli.

Tilbúin efni

Það hvernig vítamín eru svo búin til á rannsóknarstofum á lítið skylt við hvernig þau verða til í náttúrunni -með efnaskiptum dýra og plantna. Ef borðað er mikið af einangruðum og/eða tilbúnum bætiefnum má líkja því við lyfjaát sem líkaminn vinnur úr á sama hátt og um væri að ræða utanaðkomandi efni. Þvagið getur orðið gult sem ber vitni um hraðan útskilnað, þetta gerist ekki þegar vítamín rík fæða er innbyrt. Staðreyndin er sú að mörg vítamín eru í raun heilar fjölskyldur tengdra sameinda sem einungis er hægt að endurskapa að hluta til á rannsóknarstofum.

Samt hafa rannsóknir sýnt fram á að tilbúin vítamín geta verið jafngóð og þau náttúrulegu en að oft samlaga náttúruleg vítamín sig betur en tilbúnar útgáfur. Uppbygging sameinda ákvarðar hvernig líkaminn notar vítamín. Lokaafurð tilbúinna efna er yfirleitt efnasamband á formi sem ekki fyrirfinnst í náttúrunni og líkaminn á stundum erfitt með að greina þau og nýta rétt enda hafa fjölmargar rannsóknir sýnt að sum þeirra eru ekki eins aðgengileg og frásogast ekki jafn vel. Sum geta verið nýrunum erfið ef þeirra er neytt í of háum skömmtum.     

Rannsóknir á E-vítamíni hafa sýnt að líkaminn velur náttúrulega formið en hunsi að mestu hið tilbúna. Og rannsóknir á glútaþíoni hafa sýnt að það það frásogast mjög illa ef innbyrt í töfluformi. Nýlegar rannsóknir á steinefninu kalsíum sýna að það er öruggara að fá kalk úr fæðu en úr fæðubótarefnum. Eldri konur sem fengu mikið magn af kalki í töfluformi fengur oftar nýrnasteina, heilablóðföllum fjölgaði og dánartíðni þeirra hækkaði á meðan á rannsókninni stóð. Aukin dánartíðni hefur einnig komið fram í rannsóknum á inntöku A-vítamíni, E-vítamíni, beta-karótíni og svokölluðum ,,andoxunarefna blöndum" samanborið við lyfleysu. Ein rannsókn sýndi að inntaka á beta-karótíni geti aukið líkurnar á því að reykingamenn fái lungnakrabbamein. Eins og vænta má ollu þessar niðurstöður miklu fjaðrafoki innan vísindasamfélagsins sem og bætiefnaiðnaðarins. Þó má ekki taka þeim sem heilögum sannleik, en þetta gæti óneitanlega bent til þess að enn betra sé að fá vítamín og steinefni í sínu náttúrulega formi, úr mat.

Inntaka af hinu góða

Kostirnir vega þó stundum þyngra en gallarnir, B-9 eða fólínsýra, hið tilbúna, oxaða efni, breytist vel í nýtilegt form af fólati í líkamanum og frásogast jafnvel betur en náttúrulegt fólat. Hlutverk fólats og fólínsýru í að fyrirbyggja klofinn hrygg er almennt viðurkennt og hefur verið staðfest í mörgum rannsóknum. Því er konum á barneignaraldri ráðlagt að taka inn fólínsýru. Hins vegar veldur inntaka af tilbúinni fólínsýru yfir ákveðnum mörkum -óumbreyttri fólínsýru í blóði sem ekki gerist þegar um náttúrulegt fólat er að ræða.

Hátt hlutfall aldraðra eiga í erfiðleikum með að taka upp B-12 vítamín úr fæðunni, svo B-12 vítamín í töfluformi hefur verið ráðlagt fyrir 50 ára og eldri í mörgum löndum og gefið góða raun.

Einnig er eins og áður hefur komið fram, fólki á norðurslóðum mikilvægt að taka inn D-vítamín ef þau fá ekki nóg úr fæðunni eða lýsi. Þar að auki hafa Vísindamenn á borð við Linus Pauling, Ewan Cameron, Robert Cathcart hafa sýnt fram á að tilbúið C-vítamín af askorbínsýru gerð er alveg eins gott og náttúrulegt C-vítamín. Svo þarf vart að nefna að ef fólk þjáist af verulegum vítamín skorti sem lýsir sem t.d í skyrbjúg frá C-vítamín skorti, beriberi frá B1- vítamín skorti eða pellagru af níasín skorti, þá hefur það sýnt sig að tilbúin vítamín eru hjálpleg, sérstaklega í löndum þar sem matarbirgðir eru af skornum skammti.

Á meðgöngu, á unglingsárum og á fullorðinsárum getur verið mikilvægt að taka ákveðin fæðubótarefni. Þetta gildir líka um þá sem borða einhæfan mat. En almennt gildir það að það er betra að fá vítamín og steinefni úr matvælum, eins og líkamanum er náttúrulegt og neyta aðeins fæðubótarefna í samráði við næringarfræðing eða annan heilbrigðisstarfsmann. Fólk þarf að hafa það hugfast að tilbúin vítamín og önnur bætiefni koma aldrei í staðinn fyrir hollan og góðan mat. 

Heimildir:

Vísindagreinar:

Bækur:

  • Decava, Judith, The Real Truth About Vitamins and Antioxidants
  • Frost, Mary, Going Back to the Basics of Human Health
  • West, Bruce, Health Alert (Health and wellness newsletter)
  • Suckers: How alternative medicine makes Fools of Us All
  • Krause´s Food and the Nutrition care process 13th edition
  • Catherine Shanahan MD, Deep nutrition.