Krabbameinsfélagið og Eldum rétt taka höndum saman í Mottumars. Í vikum 11 og 12 (afhending 9. og 16. mars) renna 500 kr af hverjum seldum Heilsupakka til Krabbameinsfélagsins. Heilsupakkinn auðveldar þér að borða hollt og fjölbreytt og gefur þér tækifæri til að styrkja gott málefni í leiðinni.
Við viljum flest að maturinn sem við borðum veiti öll nauðsynleg næringarefni, stuðli að góðri heilsu og vellíðan og dragi úr líkum á langvinnum sjúkdómum, þar á meðal krabbameinum.
Ráðleggingar landlæknis, Krabbameinsfélagsins og krabbameinsrannsóknastofnana eru í grunninn mjög svipaðar. Uppistaðan í mataræðinu ætti að vera lítið unnin matvæli sem eru rík af næringarefnum frá náttúrunnar hendi: grænmeti, ávextir, ber, heilkornavörur, hnetur, fræ, baunir og önnur fæða úr jurtaríkinu. Inni í ráðleggingunum er svigrúm fyrir hóflega neyslu dýraafurða, svo sem fisks, kjöts, mjólkur og eggja, í mismiklu magni þó. Íslensku ráðleggingarnar mæla með fiskneyslu tvisvar til þrisvar í viku. Æskilegt er að takmarka neyslu á rauðu kjöti (miða við að borða ekki meira en 350-500 grömm á viku af lamba-, nauta-, svína- og hrossakjöti) og halda neyslu á unnum kjötvörum og annarri unninni matvöru, salti og sykri í lágmarki.
Við samsetningu Heilsupakkans er tekið tillit til ráðlegginga landlæknis og Krabbameinsfélagsins og leitast við að uppskriftirnar séu hollar, trefjaríkar og með lágum sykurstuðli. Notast er við fjölbreytt grænmeti og kryddjurtir, bæði feitan og magran fisk og rauðu kjöti haldið í hófi. Í daglegu amstri getur verið þægilegt að nýta sér þjónustu á borð við þessa sem getur auðveldað fólki að borða hollt og fjölbreytt. Ekki er verra að styðja gott málefni í leiðinni.
Heilsupakkinn

Uppskriftirnar eru hollar og trefjaríkar með lágum sykurstuðli. Pakkinn getur innihaldið fisk-, grænmetis-, kjúklinga- og kjötrétti. Engar unnar kjötvörur eru í pakkanum, kolvetnin eru flókin og hægmeltanleg. Stuðst er við ráðleggingar frá landlækni þegar kemur að hitaeiningafjölda í hverjum skammti sem fer ekki yfir 700 hitaeiningar.

Smelltu hér til að kaupa Mottumarssokkana 2020
Við tökum með stolti þátt í Mottumars og bjóðum viðskiptavinum okkar að kaupa Mottumarssokkana hjá okkur. Sokkaparið kostar aðeins 2000 kr og mun fjárhæðin renna óskert til Krabbameinsfélagsins.
Mottumars er árlegt átaksverkefni Krabbameinsfélagsins tileinkað baráttunni gegn krabbameinum hjá körlum. Mottumars er árlegt verkefni Krabbameinsfélagsins, sem er í senn vitundarvakning um krabbamein hjá körlum og fjáröflun fyrir félagið.
Með heilsusamlegum lífsstíl er hægt að koma í veg fyrir 4 af hverjum 10 krabbameinum. Krabbameinsfélagið vinnur að forvörnum gegn krabbameinum og hefur það að markmiði að fækka þeim sem greinast með krabbamein. Starfsemi félagsins byggir alfarið á styrkjum einstaklinga og fyrirtækja og með kaupum á Mottumarssokkum leggur fólk stórt lóð á vogarskálarnar.
Sérhannaðir sokkar hafa síðastliðin tvö ár vakið mikla lukku. Í ár bjóðum við nýja og glæsilega Mottumarssokka til styrktar átakinu á 2000 kr. Hönnuður þeirra er Gunnar Hilmarsson, yfirhönnuður Herrafataverzlunar Kormáks og Skjaldar.