Skip to main content

Chia fræ

full af trefjum, próteinum og omega-3 fitusýrum

Íslendingar ættu að vera orðnir vel kunnugir Chia fræjum, þessum pínulitlu svörtu fræjum Chia plöntunar, Salvia hispanica, sem eru hvarvetna í hávegum höfð. Ekki að ástæðulausu, Chia fræ eru próteinrík, innihalda omega-3 fitusýrur og mikið af trefjum eða næstum 35 g í 100 g. Þar að auki innihalda þau plöntuefni (e.phytochamicals) sem við erum rétt nýbyrjuð að rannsaka, auk þess sem þau eru almennt ríkari af steinefnum og andoxunarefnum en önnur fræ. Rannsóknir sýna að það að borða trefjar og fá nóg af omega-3 fitusýrum lækkar áhættuþætti fyrir m.a. hjartasjúkdóma og sykursýki.

Chia fræ koma frá Mexico og Guatemala og skipuðu stóran sess í fæði Asteka og Maja til forna. Þeir borðurðu fræin heil, bættu þeim útí drykki, gerðu úr þeim meðöl og pressuðu úr þeim olíu. Töldu þeir að fræin færðu þeim yfirnáttúrlega krafta enda þýðir „chia“ styrkur á fornu tungumáli Maja. Færa má rök fyrir því að chia fræ hafi gefið þeim einhverja yfirburði en eins og önnur fræ eru þau afar orkurík ásamt því að vera næringarrík. Stríðsmönnum ættbálkanna hefur ekki veitt af slíku, sérstaklega fyrir orrustur en þá  neyttu þeir sinna sögulegu Chia drykkja. Enn í dag eru til þjóðflokkar sem trúa á töframátt Chia. Tarahumara ættbálkurinn í Mexíkó er þekktur fyrir hlauparana sína sem drekka Chia drykk sem kallast Iskiate fyrir öll hlaup. Iskiate samanstendur af Chia fræjum, vatni og sítrónu.

Hægt er að nota Chiafræ á margan máta en þau nýtast best ef þau eru lögð í bleyti,  þá tekur líkaminn þau frekar upp. Chia fræ gleypa í sig mikinn vökva og mynda einskonar gel, því henta þau vel til þess að gera grauta og þar sem þau eru frekar bragðlaus, einnig má nota þau líka til að þykkja sósur. Þá eru þau líka mikið notuð í bakstur, útí jógúrt eða þeim er einfaldlega stráð yfir mat. Hægt er að nota Chia fræ í stað eggja, þá er miðað við 1 msk af vel muldum fræjum sem hafa legið í 3 msk af vatni í amk 10 mín – í staðinn fyrir 1 egg.