Skip to main content

Blómkálsgrjón

Hvað eru blómkálsgrjón, í hvað eru þau notuð og hvernig gerir maður þau?

Birt 01. nóv. '21

Blómkál er skemmtilegt grænmeti sem hefur upp á margt að bjóða þegar kemur að tilraunastarfsemi í eldhúsinu þar sem það er hefur milt bragð og passar því með næstum öllum mat. Hægt er að sjóða það upp á gamla mátann, steikja á pönnu, djúpsteikja, gera úr því stöppu eða svokallaða blómkáls „mousse“ nú eða bara klassíska blómkálssúpu.  

Bragðið er svo milt að blómkál er jafnan notað til að þykkja eða gefa öðrum réttum vissa áferð eða þá bara til að auka grænmetisneysluna. En upp á síðkastið hafa vinsældir svokallaðra blómkálsgjóna aldeilis látið á sér kræla. 

Til að gera blómkálsgrjón eru tvær megin aðferðir. Annaðhvort er blómkálið rifið á rifjárni og svo léttsteikt á pönnu eða það sett í matvinnsluvél í örstuttan tíma. Úr verða „grjón“ sem eru svo notuð í stað hrísgrjóna í nær hvaða rétt sem er nema kannski hrísgrjónagraut og eftirrétti.  

Blómkálsgrjón eru oft notuð í stað hrísgrjóna einfaldlega til tilbreytingar, en aðallega er þetta gert til að minnka kolvetnainnihald máltíða enda er þetta hvað vinsælast meðal fólks sem er með sykursýki eða er á lágkolvetna mataræði.  

 

Hér má sjá muninn á hrísgrjónum og blómkáli hvað varðar orkuefnin:  

100 g Basmati hrísgrjón, elduð: 

Orka: 124 kcal 

Fita: 0.4 g 

Kolvetni: 26.9 g 

Trefjar: 0.2 g 

Prótein: 3.2 g 

100 g blómkál, eldað: 

Orka: 23 kcal 

Fita: 0.2 g 

Kolvetni: 2.3 g 

Trefjar: 2.3 g 

Prótein: 1.9 g 

 

En einnig er mun meiri næring í blómkálinu, hér má sjá muninn á helstu næringarefnum: 

100 g Basmati hrísgrjón, elduð: 

Fólat: 3 µg 

C- vítamín: 38 mg 

Kalk: 6 mg 

Kalíum: 26 mg 

Magnesíum: 9 mg 

Fosfór: 35 mg  

 

 

100 g blómkál, eldað: 

Fólat: 28 µg 

C- vítamín: 38 mg 

Kalk: 21 mg 

Kalíum: 360 mg 

Magnesíum: 14 mg 

Fosfór: 54 mg  

www.matvaretabellen.no 

 

Hversu lengi geymast blómkálsgrjón? 

Hrátt blómkál sem hefur verið rifið í grjóna fer að lykta af súlfur frekar fljótt ef geymt inn í ísskáp, svo best er að geyma blómkálið heilt eða að geyma hrá blómkálsgrjón í frysti þar sem það geymist í allt að mánuð. Þetta gerist ekki ef þau eru elduð og geymast þau þá í a.m.k. 4 daga inn í ísskáp í lokuðu íláti.  

 

Uppskrift 

Leiðbeiningar fyrir 1 stóran haus af blómkáli

  1. Skolið blómkálið og skerið burt það græna 

  1. Skerið blómkálið í stóra bita og rífið niður með rifjárni með meðal stórum götum til að búa til grjón. Ef matvinnsluvél er notuð, passið að grjónin verði ekki að stöppu, stuttur tími er lykillinn.  

  1. Ef vill: Leggið blómkálsgrjónin á eldhúsbréf og pressið til að fjarlægja umfram raka. 

  1. Léttsteikið grjónin á pönnu með u.þ.b. 1 msk. af olíu á lágum hita í 8-10 mín.  

  1. Kryddið með salti og pipar, sojasósu eða hvernig sem hentar máltíðinni sem blómkálsgrjónin eiga að fara saman við.