Skip to main content

Beinaseyði

næringarríkt og stútfullt af kollageni

Birt 25. feb. '21

Að búa til og drekka soð af beinum hefur verið gífurlega vinsælt síðustu misseri. En framleiðsla á beinaseyði er ekki ný af nálinni, heldur er um að ræða ævafornan heilsudrykk sem hefur fylgt manninum í aldanna rás. Hér áður drakk fólk það til þess einfaldlega að nærast, notaði það til bragðbætingar í hina ýmsu rétti og til að flýta fyrir gróanda í sárum, beinbrotum o.fl. Í dag notar fólk seyðið í sama tilgangi en auk þess til að léttast, næra liðina og bæta meltingu, húð og hár.  

 

Hvernig er beinaseyði búið til?  

Beinaseyði er gert með því að blanda dýrabeinum og bandvef út í vatn, og bæta við einhvers konar sýru, svo sem ediki eða sítrónusafa. Hitinn og sýran brjóta niður kollagenið og bandvefinn. Við það myndast bragðmikill, næringarþéttur vökvi sem er notaður í súpur, sósur og heilsudrykki. 

Hægt er að nota hvaða dýrabein sem er; kjúklinga, kalkúna, svína, nauta, fiska eða villibráð. Einnig er hægt að nota hvaða merg- eða bandvef sem er.

 

Hvaða næringarefni eru í beinaseyði?  

Næringarinnihaldið fer eftir innihaldsefnum og gæðum þeirra. Ekki einungis hvaða bein eru notuð, hve lengi þau eru soðin og hvað dýrið borðaði – heldur einnig hvort grænmeti sé haft með í soð uppskriftinni og þá hvaða grænmeti. Beinaseyði er venjulega mjög lágt í hitaeiningum, en mjög mettandi vegna gelatín innihalds þess. Það inniheldur nær engin kolvetni, heldur fyrst og fremst prótein, sem er raunar helsti næringarlegi ávinningurinn af því, en í minna mæli fitu og steinefni, ásamt söltum og jónaefnum/raflausn (e. electrolytes). Þetta stuðlar að góðum vökvabúskap í líkamanum.  

 

Beinaseyði er gott fyrir beinheilsu 

Beinin sjálf gefa af sér ýmis næringarefni sem eru mikilvæg fyrir beinheilsu, þar á meðal kalsíum, magnesíum og fosfór en einnig kalíum, brennistein (e. sulfur) og sílíkon. Hins vegar skal hafa hugfast að magn þessara efna í beinaseyði er fremur lágt.  

Úr beinmergnum getum við svo fengið A-vítamín, K2-vítamín, omega-3, smá omega-6 og steinefni eins og járn, sínk, selen, bór og mangan. Mergur úr nautakjöti og lambakjöti inniheldur svo einnig CLA - fitusýrur sem hafa verið afar vinsælar sem bætiefni upp á síðkastið.  

 

 

Beinaseyði er ríkt af kollageni á auðmeltanlegu formi; gelatíni 

Beinin, mergurinn og bandvefurinn eru að mestu samsett úr kollageni, sem breytist í gelatín þegar það er soðið. Inntaka kollagens hefur sýnt sig vera einstaklega góð fyrir bein, liði og meltingu, og jafnvel húð, hár, neglur og svefn. Kollagen hefur að geyma sérstæða blöndu amínósýra og er sérstaklega ríkt af hinu mikilvægu glýsíni (e. glycine) og prólíni (e. proline) – sem eru svo oft af skornum skammti í mataræði okkar Vesturlandabúa þar sem við borðum aðallega vöðva af dýrum en ekki innmat.  
 

  • Glýsínið er meðal annars bólgueyðandi og getur haft andoxandi áhrif. Einnig hefur verið sýnt fram á að glýsín bæti svefn og heilastarfsemi.  
  • Prólín sem á þátt í endurnýjun frumna og hjálpar til við gróanda, hefur einkum verið lofað fyrir græðandi áhrif á meltingarveginn. Þá er að finna í kollageni sérstök sykurprótín; glýkósamínóglýkans (e. glycosaminoglycans eða GAGs) eins og til dæmis chondroitin súlfat (e.chondroitin sulfate), glúkósamín (e. glucosamine sulfate) og hýalúrónsýra (e. hyaluronic acid).  
  • Glúkósamín og chondridótín eru afar græðandi fyrir liðina og eru meðal annars seld sem fæðubótarefni til hjálpar í liðagigt, slitgigt og öðrum bólgusjúkdómum.  
  • Hýalúrónsýra er aftur á móti seld sem undrameðal við húðvandamálum og hrukkum út um allan heim. Hér er hægt að lesa meira um kollagen.

 

Hvar er hægt að fá bein? 

Sniðugt er að safna beinum frá t.d. kvöldmáltíðum í poka sem geymdur er í frystinum en einnig er hægt að fá bein gefins eða fyrir lítið hjá slátrara eða í kjötborðinu í mörgum kjörbúðum. Oft eru líka bein til sölu í kjötkælinum á slikk.  

 

Einföld uppskrift af beinaseyði  

Að búa til beinaseyði er afar auðvelt, flestir nota ekki einu sinni uppskrift. Þú þarft í raun bara bein, edik, vatn og pott. Hins vegar er gott að bæta grænmeti til viðbótar, til auka bragð og næringu. Hægt er að finna margar góðar uppskriftir á netinu en hér er ein góð til að koma manni af stað:  

 

Hráefni:  

750 g bein t.d. kjúklingabein 

2 l vatn  

1 msk edik 

½ laukur 

2 hvítlauksgeirar 

½ blaðlaukur 

1 tsk salt & pipar 

 

Bæta við ef vill: 

2-4 gulrætur 

4 stangir sellerí 

1 búnt steinselja  

 

 

Aðferð:  

Setjið skorið grænmeti og kjúklingabein í pott. 

Hellið köldu vatni í pottinn þannig að það nái upp fyrir beinin og látið suðuna koma upp.  

Fleytið froðuna af (má sleppa) og kryddið með salti og pipar.  

Látið malla á litlum hita í 2 til allt að 24 klst (þá mælum við samt með a.m.k. tvöfaldri uppskrift). 

Því lengur sem soðið er látið malla, því bragðmeira og næringarríkara verður það.  

Síið soðið og kælið.  

 

Hagnýtar upplýsingar 

Hægt er að geyma soðið í ísskáp í 5 daga eða í frysti í 6 mánuði.  

Einnig er gott að bæta allskonar kjöti, brjóski, innmat eins og lifur og nýrum, ferskum kryddjurtum og öðru grænmeti í soðið. Vinsælt er að nota lárviðarlauf, engifer, sítrónu og rófur.  

Margir gera soðið í svokölluðum „crockpot,“ sem ætlaður er ti hægeldunar (e. slow cooker) þá er hægt að vera fjarverandi meðan soðið mallar.  

Sniðugt er að geyma soðið svo í klakaboxum eða klakapokum og nota eftir þörfum. Margir hita sér daglega og fá sér sem bollasúpu eða henda nokkrum klökum út í hina ýmsu rétti.  

 

 

 

 

Heimildir:  

 

https://www.ncbi.nlm.nih.gov/pubmed/12589194 

https://www.ncbi.nlm.nih.gov/pubmed/18319637 

https://www.ncbi.nlm.nih.gov/pubmed/12589194 

https://www.ncbi.nlm.nih.gov/pubmed/19864402 

https://www.ncbi.nlm.nih.gov/pubmed/25589511 

https://www.ncbi.nlm.nih.gov/pubmed/12860572 

https://www.ncbi.nlm.nih.gov/pubmed/22529837 

https://onlinelibrary.wiley.com/doi/full/10.1111/j.1479-8425.2007.00262.x 

https://onlinelibrary.wiley.com/doi/full/10.1111/j.1479-8425.2006.00193.x