Skip to main content

Bananar: Hollir og ljúffengir

Banani er klárlega einn vinsælasti ávöxturinn á Íslandi

Birt 12. Jun. '18

Allir þekkja banana. Þeir eru sætir, í rauninni ber og kalín-ríkir. Mýtan segir að ef þú borðir sjö banana í röð gætirðu dáið úr of stórum skammti af kalíni en svo er ekki raunin og í raun er meira kalín í 100 grömmum af spínati en bönunum. Í hverjum 100 grömmum af banana færðu rétt tæpar 90 hitaeiningar, en þeir eru um 75% vatn, 23% kolvetni og 1% prótín.

Hvaðan eru bananar?

Bananinn er upprunalega frá Suður- og Suðaustur-Asíu og Eyjaálfu og eru elstu ummerki um ræktun hans síðan um 5000 f.kr. Í dag eru Cavendish-bananar um 50% af öllum framleiddum bönunum í heiminum og eru seldir á almennum markaði. Þeir vaxa hratt, endast lengi eftir að þeir eru skornir af trjánum og trén leggjast ekki í dvala annað hvert ár líkt og mörg önnur bananatré. Cavendish-bananar eru stundum kallaðir Chiquita-bananar, en þetta þekkta bananafyrirtæki ræktar nær eingöngu Cavendish-tegundina. Tegundin er harðgerð og er til dæmis ónæm fyrir Panama-sveppasýkingunni sem dró Gros Michel-tegundina nær alfarið til dauða, en sú tegund var sú vinsælasta fram að 6. áratug síðustu aldar.

Það eru hins vegar blikur á lofti nú um stundir en „black sigatoka“ sveppurinn hefur verið að breiðast út milli Cavendish-bananatrjáa um allan heim. Sveppurinn virðist nokkuð ónæmur fyrir þeim eitrunum sem leyfilegar eru og sum staðar er kostnaðurinn við eitrun orðinn mjög hár.

Bananarnir eru tíndir grænir en eftir því sem þeir verða gulari því sætari verða þeir, en sterkjan umbreytist í sykur með tímanum. Brúnu og svörtu blettirnir sem myndast á hýðinu eru tilkomnir vegna sykurs. 

Hvernig er banani bestur?

Langflestir borða banana eina og sér eða setja í „boozt“, en einnig er vinsælt að setja hann ofan á brauð, grilla til að gera bananasplitt (með súkkulaði og ís) eða ofan á pizzu. Fólk með latex-ofnæmi gætu fengið ofnæmisviðbrögð við bönunum.

Matarbananar er afbrigði sem færri þekkja en er oft hægt að finna í betri matvöruverslunum landsins. Þeir eru stærri en venjulegir bananar og grænni. Matarbananar eru þó bara eitt afbrigði af bönunum en ekki önnur tegund. Það sem skilur þá að frá þeim bönunum sem við borðum alla jafna er að það er meiri sterkja í þeim og því rammari á bragðið en við eldun brotnar hún niður og verður að sykri.

Það er þó ekki aðeins ávöxtur bananatrésins sem fólk borðar víða um heima, því í raun er allt tréð notað til átu, sérstaklega í Suður- og Suðaustur-Asíu.

Við mælum með bönunum en hann er auðvelt að grípa með sér þegar maður er á hraðferð eða vantar eitthvað smávægilegt á milli mála.