Skip to main content

Avókadó - mjög sérstakur ávöxtur

Lárperur innihalda góða fitu, járn og trefjar

Birt 28. mar. '18

Græni suðurameríski ávöxturinn avókadó hefur vaxið í vinsældum hérlendis síðustu ár en hann einkennist af feitu, grænu kjöti sem er sérstaklega gott í suðuramerískum mat.

Íslenska heitið lárpera kemur frá því að ávöxturinn vex á tré af lárviðarætt. Eins eru orðin avókadó og grænaldin notuð en krókódílapera sjaldnar (þýtt úr enska orðinu alligator pear).

Algengasta tegundin um 100 ára gömul

Algengasta lárperutegundin heitir því skemmtilega nafni Hass en 80% af öllum seldum lárperum í heiminum eru af þessari tegund. Hún var búin til snemma á 20. öldinni en öll Hass-tré eru komin af einu móðurtré.

Lárperan er í minni kantinum eða um 200-300 grömm á þyngd. Þegar það er þroskað, þá verður hýðið dökk fjólu-svart á lit og kjötið er mjúkt þegar ýtt er á hýðið. Kjötið sjálft er hvít-grænt að lit þegar það er þroskað og tilbúið til átu.

Það er auðvelt að skera þroskaða lárperu því hún er svo mjúk. Það er stór steinn í henni miðri og því þarf að skera í kringum hann. Þegar það er búið, getur þú tekið þéttingsfast utan um hvorn helming fyrir sig og snúið í sitthvora áttina. Þú ættir þá að geta tekið lárperuna í sundur. Til að ná steininum úr getur þú annað hvort stungið hníf í steininn og togað út eða rennt skeið með fram steininum og losað hann þannig.

Svona skerðu lárperu

Til að ná kjötinu úr hýðinu þarftu skeið og hníf. Við mælum með að skera kjötið í bita áður en þú tekur það úr hýðinu. Hversu stóra bita þú vilt er upp á þig komið, en þú getur annað hvort skorið kjötið í sneiðar eða teninga. Það þarf bara að passa að fara ekki í gegnum hýðið.

Næst tekurðu skeiðina og rennir henni á milli kjöts og hýðis og losar það þannig.

Næringarríkur ávöxtur

Lárpera er sneisafull af alls kyns góðri fitu og vítamínum. Í hverjum 100 grömmum af Hass lárperu er um 160 hitaeiningar, 15 grömm af fitu, 7 grömm af trefjum og samtals 36% af ráðlögðum dagsskammti af A-, C- og B6-vítamíni og járni.

Það er mjög vinsælt að skera lárperur í sneiðar eða stappa og setja ofan á brauð. Eins er mjög vinsælt að setja það út á salat eða mauka það og gera mexíkósku ídýfuna Guacamole, sem er hægt að borða með snakki eða sem sósa í mexíkóskum mat. Sumir skera lárperuna í tvennt, brjóta egg í sitthvora holuna og inn í ofn.

En hvernig sem þú munt borða lárperuna er víst að hún er bráðholl og því hægt að borða hana án alls samviskubits. Það er ekki alltaf sem eitthvað svo gott sé svo hollt.