Skip to main content

Þrjú hráefni sem geta komið í staðinn fyrir pasta

Hægt er að nota ýmis hráefni í staðinn fyrir hveiti- og kolvetnabombur

Birt 21. mar. '18

Tíminn líður hratt á gervihnattaöld og stundum nennir maður ekki að elda stórfenglega máltíð. Þá er auðvelt að grípa í pastapakkann en ef þig langar í pasta án þess að borða pasta þá er hæglega hægt að nýta grænmeti í þess stað.

Kúrbítur sem lasagne

Þig langar í lasagne en þú stundar lágkolvetna lífsstíl eða ert vegan, hvað gera bændur þá? Jú, þeir nota kúrbít í stað lasagne pasta. Þú þarft að auðvitað að skera grænmetið niður í hentugar lasagne sneiðar, en einfaldast er að notast við skrælara til að skera það niður. Þess fyrir utan gerir þú réttinn rétt eins og þú hefðir annars gert með pastanu.

Eggaldin sem cannelloni

Cannelloni, pípulaga pasta sem fyllt er með með hverju því sem þér dettur í hug og bakað inni í ofni, er afskaplega góður réttur. Skera þarf eggaldinið í u.þ.b. 1 sentímetra þykkar sneiðar, best er svo að grilla sneiðarnar í 2-3 mínútur eða baka í 15 mínútur í 200° heitum ofni. Sneiðarnar eru þá orðnar nógu mjúkar til að setja fyllingu á og rúlla upp. Næst er cannelloni rétturinn kláraður eins og vanalega.

Grasker (squash) sem spaghetti

Til að gera spaghetti úr squash-i þarf að byrja á því skera það í tvennt, en það getur tekið á, svo tekurðu fræin og annað úr miðju ávaxtarins. Næst þarftu að elda squash-ið, en það er annað hvort hægt að gera í ofni eða í örbylgjuofninum. Til að elda það í örbylgjuofni, þá setur þú helmingana á hvolf (kjötið niður), bætir við 4-5 matskeiðum af vatni og setur svo plastfilmu yfir. Inn í örbylgjuofninn með diskinn og hitað í 7-8 mínútur eða þar til kjötið er orðið mjúkt. Til að elda ávöxtinn í ofni, þá mælum við með að smyrja smá olíu á kjötið með pensli og setja svo salt og pipar. Næst er það sett í 200° heitan ofninn og eldað í um 40 mínútur eða þar til kjötið er orðið mjúkt.